Fokusing - Valgerdur Olafsdottir

Main menu:

Unnið með fókusing-aðferð með unglingi og börnum á leikskóla

Kennaraháskóli Íslands

Leikskólabraut

4. misseri, vor 2008

Tilfinningaleikni

Tilfinningaleikni
Unnið með fókusing-aðferð með unglingi og börnum á leikskóla

Inngangur

Tilfinningaleikni (focusing) var þróuð af Dr. Eugene Gendlin, á áttunda áratugnum.  Gendlin komst að því að fólk sem hefur góð tengsl við tilfinningar sínar á auðveldara með að komast í gegnum erfið tímabil en aðrir.  Það er viðurkennt að við upplifum tilfinningar líkamlega og geymum þær í líkamanum.  Við þurfum að fá útrás fyrir þær en þær safnast fyrir óuppgerðar ef við ýtum þeim til hliðar.  Þær geta því verið okkur til óþæginda og jafnvel valdið sjúkdómum.  Með því að fókusa getum við aftur komist í tengsl við tilfinningar okkar.  Þetta er leið til að hlusta á líkama sinn af skilningi og hlutleysi.  Aðferðin snýst um að vera opinn gagnvart sjálfum sér.  Með því að hlusta á líkamann og vera opinn nær maður að skilja sjálfan sig betur (Valgerður 200?:5-6).  Að þessu gefnu hlýtur það að skipta miklu máli að manneskja byrji sem fyrst að vera meðvituð um eigin tilfinningar og líðan, og læri að hlusta á, skilja og virða sjálfa sig.  Það þýðir að best væri að ef fólk tileinkaði sér þessa aðferð þegar í barnæsku.

Hér á Íslandi hefur undanfarin ár verið unnið að einhverju marki með tilfinningaleiknina með börnum.  Þá er lögð áhersla á að skapa umhverfi sem byggir á svokölluðum fókusing-viðhorfum.  Þau eru: Öryggi, opinn hugur, samhyggð, nærgætni og gagnkvæm virðing.  Þetta felst í því að koma vera með börnunum þar sem þau eru, þau eru hvött til að ræða um tilfinningar hvort sem þær eru góðar eða slæmar.  Markmiðið er að börnin geti verið í tengslum við innri sannleika sinn, að þau geti verið betur í stakk búin til að treysta sínum „innri stað sem veit hvað er rétt fyrir þau“ og  að þau finni að það er í lagi að finna fyrir öllum sínum tilfinningum sínum.  (Valgerður, fokusing.is).

Hér á eftir verður sagt frá hvernig fókusing aðferðin var notuð á tvennan hátt, annars vegar með börnum á leikskóla og hins vegar með fjórtán ára unglingi.  Leitast var við að vinna eftir fókusing-viðhorfunum, hlusta á börnin og spegla þeirra tjáningu, til þess að fá þau til að líða vel með sig sjálf og tilfinningar sínar og finna til öryggis.

Fókusing á leikskóla

Það skiptir miklu máli að komið sé fram við leikskólabörn af hlýju, virðingu og skilningi.  Þau eru einstaklingar með eigin vilja, skoðanir og tilfinningar.  Við sem vinnum með þau getum lært mjög margt af því skoða tilfinningar þeirra og ekki síður okkar eigin tilfinningar gagnvart þeirra tilfinningum og hegðun.  Í starfinu er maður alltaf að endurskoða sjálfan sig og hvernig maður vill koma fram við börnin.  Börnin eru oftast mörg saman á deild á leikskólanum og í erli dagsins gefst minni tími en skyldi til þess að eyða tíma með hverju barni í rólegheitum.  Það skiptir máli að reyna að kynnast hverju barni vel og gæta þess að þau sem eru hæglát fái jafn mikla athygli og þau börn sem ber mikið á.  Það er nauðsynlegt að börnin fái að finna að það sé hlustað á þau, að þau geti leitað til okkar og finna að tilfinningar og hugsanir þeirra skipti máli og séu virtar.

Ég hef notað fókusing-aðferðina dálítið á leikskóla og mér finnst börnin hafa notið þess mikið þegar ég hef speglað það sem þau eru að segja.  Einn drengur (sem kemur hér fram undir nafninu Tómas) sem ég hef verið að spegla hefur komið til mín dag eftir dag til að segja mér frá ýmsu.  Mér finnst hann hafa sótt í speglunina.  Einu sinni sagði hann mér frá þegar hann var í heimsókn hjá ömmu sinni og frændi hans sem var þar líka var sóttur af sjúkrabíl.  Hann sagði frá og lýsti með hreyfingum hvernig frændi hans hafði hrist og dottið í gólfið.  Það var þó nokkuð tilfinningainnihald í frásögninni og ég einbeitti mér að því að spegla það.  Tómas sagðist hafa verið hræddur, og þegar sjúkrabíllinn kom hefði hann verið hræddur um að frændi sinn myndi deyja.  „Hann var svo skrýtinn og það var svo vont.  Mér fannst það líka vont.“  „Þér fannst að líka vont,“ speglaði ég.  Ég spurði hann þá hvort hann hefði fundið það í líkamanum sínum hvar það var vont.  Hann lamdi þá með hnefanum í brjóstkassann nokkrum sinnum.  „Var það vont þarna?“ spurði ég.  „Já.  Þegar Brynjar datt og lét illa og fór með sjúkrabílnum,“ sagði hann.  Ég spurði hann þá hvernig það væri núna þarna inni.  „Er það vont þarna núna?“  „Nei, bara smá.“  „Það er bara smá vont þarna núna,“ speglaði ég.  Mér datt í huga að spyrja Tómas hvort hann vildi teikna mynd af því þegar Brynjar fór á sjúkrahúsið en hann vildi það ekki.  Næsta dag kom hann þó með mynd sem hann hafði teiknað heima, af Brynjari á sjúkrabörum.  Höfuðið á honum var mjög stórt og það komu eldingar út úr honum.  Ég bað drenginn um að lýsa myndinni og meðan hann sagði frá speglaði ég.  Þegar við höfðum skoðað myndina sagði hann: „Mér er illt í hausnum á mér af því að ég er alltaf að hugsa um þetta.“  Fyrst hafði Tómas tengt líðan sína við brjóstkassann og nú við höfuðið.  „Þú ert alltaf að hugsa um þetta og þú finnur það hvað þér er illt í höfðinu.“ “Já, en ég vil það ekki.  En mig langar að hringja í Brynjar frænda minn og tala við hann.  En mamma segir að ég megi það ekki strax.“  „Þig langar bara að hringja í Brynjar,“ sagði ég þá á móti.

Ég sagði móður drengsins að hvað hann hafði verið að tala um og hún sagði mér að Brynjar, sem er 17 ára, hefði fengið flog þegar þau voru í heimsókn.  Þetta hefði fengið mjög á drenginn og hann talaði líka mikið um þetta heima.  Næstu daga hélt hann áfram að tala um þetta og eitt skipti í frjálsum leik lék hann eftir flogið sem frændi hans fékk.  Þá lék hann sem hann hristist ógurlega og datt svo í gólfið þar sem hann hélt áfram að hristast.  „Var það svona þegar frændi þinn fékk flog?“ spurði ég.  „Já, viltu sjá það aftur?  Þú verður að horfa vel, þetta er svo hræðilegt.“  „Þú vilt að ég horfi vel, því þetta er svo hræðilegt.“  Tómas lék flogið tvisvar sinnum enn og það var eins og hann fengi dálitla útrás við þetta.  Síðan datt mér í hug, af því að hann hafði verið að tala um að hann langaði að hringja í Brynjar, að bjóða honum dótasíma sem var til á annarri deild.  Ég náði í símann og bauð honum að leika með hann.  Hann þáði símann og náði sér svo í blað og blýant.  Hann fór með símann í fataklefann þar sem hann var einn.  Hann var þar lengi vel og kom svo aftur.  „Ég er búinn að hringja í Brynjar,“ sagði hann.  „Þú ert búinn að hringja í hann.“  „Já.  Hann getur bráðum farið heim til ömmu.  Hann sagði að hann væri búinn að fá að horfa á videó og stundum ís.  Þegar hann kemur heim ætla ég að fara með honum í húsdýragarðinn.  Hann sagði að ég mætti það.“  „Þig langar að fara með Brynjari í húsdýragarðinn.“  „Já, og ég ætla að teikna mynd handa honum.  Hann verður ótrúlega glaður þegar hann fær hana.“  „Brynjar verður ótrúlega glaður þegar hann fær myndina frá þér.“

Út frá þessu með drenginn, upplifun hans af flogi frænda sínsog því sem var að gerast innra með honum, datt mér í hug að prófa að vinna með líkamsskynjun í hópi barna.  Ég hef stjórnað samverustundum með 9 börnum, þrisvar sinnum í viku og ákvað að prófa þetta þar.  Ég vildi þá vinna með líkamann, líðan og fókuseringu.  Hver samverustund byrjaði á því að börnin vöktu líkama sinn.  Við nudduðum tærnar, fæturna, magann, bakið, hendurnar, brjóstkassann, hálsinn, kinnarnar, ennið, eyrun og svo framvegis.  Á meðan við vorum að þessu sögðum við saman:  “Halló tær, hvernig líður ykkur í dag, halló magi, hvernig hefur þú það?” og svo framvegis.  Síðan liðkuðum við okkur með því að teygja á fótum, höndum, hálsi og slíku.  Síðan sungum við stutt lag með einföldum texta: „Góðan dag, góðan dag, hvernig líður þér í dag, góðan dag, góðan dag, hvernig líður mér í dag?“ Við gegnum röðina og börnin sögðu hvernig þeim liði í dag. Sum börnin sögðu að þeim liði vel, öðrum var illt í maganum og einhverjum hafði verið strítt úti.  Ég reyndi að spegla það sem börnin voru að segja.  Stundum speglaði ég með því að segja til dæmis við hina krakkana: „Heyriði, hún Elín er svo glöð af því að hún er að fara í sund í dag.“  Ég ákvað að spyrja drenginn sem hafði verið strítt í útiverunni hvort hann hefði fundið hvernig honum leið í líkamanum þegar honum var strítt.  Hann sagði að hann hefði verið reiður og að líkaminn hefði líka verið reiður.  „Hvað vildi líkami þinn þá gera?“  Hann sagðist ekki vita það.  „En hvað vildir þú gera?“  „Ég vildi bara fá mömmu.“  „Þú vildir bara fá mömmu,“ speglaði ég.  „Var það rétt fyrir þig, að fá mömmu?“  „Já.“  Þá talaði ég aðeins við börnin um að við getum alltaf fundið sjálf hvað er rétt fyrir okkur að gera.

Við áttum fimm samverustundir í viðbót þar sem við unnum með líkamsvitundina og líðanina.  Börnin sögðu alltaf nákvæmar og nákvæmar frá hvernig þeim leið og við héldum áfram að tala um hvað væri „rétt fyrir okkur.“  Ég spurði þau til dæmis hvort þau hefðu gert eitthvað í dag sem væri alveg rétt fyrir þau og hvort þau hefðu gert eithvað sem þau hefðu ekki viljað gera.  Ein stúlkan sagði frá því að hún og vinkonur hennar hefðu verið í hlutverkaleik og hún vildi vera bankakona en vinkonur hennar hefðu bannað henni það.  Þær vildu að hún væri prinsessa eins og þær.  Hún samsinnti því þegar ég spurði hvort það hefði verið rétt fyrir hana að vera bankakona.  Hún sagði frá því að hún hefði hætt í leiknum af því að hún mátti ekki leika hlutverkið sem hún vildi.  Vinkonur hennar tvær sögðu þá að þetta hefði verið prinsessuleikur og að það séu aldrei bankakonur í prinsessuleik.  Við ræddum þá aðeins um það hvort það sé ekki stundum hægt að breyta reglum í leik.  Þarna sköpuðust umræður um hvað er „rétt fyrir mann sjálfan“ og „hvað er rétt fyrir aðra.“

Í einni samverustundinni lituðu börnin myndir af því hvernig þeim leið þá stundina og í annarri stund leiruðu þau líðan sína.  Það var mjög gaman að fylgjast með hvernig börnin fóru smám saman að tala um það sín á milli hvernig þeim leið.

Þessi vinna með barnahópnum gaf mér mjög mikið og ég get alveg hugsað mér að halda þessu áfram.  Ég held að það sé verðugt verkefni að hafa eftirfarandi atriði að leiðarljósi í leikskólastarfinu: Að stuðla að því að börnin verði meðvituð um tilfinningar sínar og verði fær um að tjá þær á eðlilegan hátt; Að kenna börnum um rétt sinn yfir líkama sínum og þeim tilfinningum sem þau finna fyrir; Að skapa umhverfi þar sem fókusing viðhorf, þ.e.a.s. öryggi, opinn hugur, nærgætni, nærvera, gagnkvæm virðing og alúð eru höfð að leiðarljósi; Að börn læri að hlusta á sig sjálf og aðra af  virðingu (Valgerður Ólafsdóttir 200?:4).

Fókusing með unglingi

Mig langaði að nota fókusing-aðferðina með fjórtán ára systursyni mínum sem ég hef alltaf umgengist mikið.  Ég vissi þó að mér myndi finnast erfiðara að spegla frænda minn heldur en börnin á leikskólanum.  Ég bauð honum á kaffihús einu sinni í viku í þrjár vikur en sagði honum ekki hvað ég væri að fara að gera.

1. kaffihúsaferð:  Við settumst niður með kakóbolla og snúða og byrjuðum að spjalla um daginn og veginn.  Fljótlega fór hann að tala um nýafstaðna fermingu og ég greip tækifærið og speglaði það sem hann var að segja.  Eiginlega varð ég hálf vandræðaleg þegar ég var að spegla og hugsaði um að honum fyndist þetta örugglega skrýtið, að ég væri alltaf að endurtaka það sem hann væri að segja.  Ég reyndi því að halda spegluninni í hófi, og einskorða hana við tilfinningainnihald og áherslur í máli hans.  Hann fór að tala um hvað það hefði verið gaman í fermingarveislunni og hvað hann ætlaði að gera við peningana sem hann fékk í fermingargjöf.  Hann talaði mest og ég gaf honum til kynna að ég væri að hlusta, með því að horfa á hann, segja „já“ eða „ég skil,“ á viðeigandi stöðum, og speglaði svo nokkur orð.  Ég vildi frekar að hann skynjaði það að ég væri að hlusta á hann með athygli heldur en að leggja aðaláherslu á að spegla.  Mér gekk heldur ekki nógu vel við það.

2. kaffihúsaferð:  Frændi minn sagði mér að honum fyndist mjög gaman að fara á kaffihús með mér í hverri viku.  Ég held líka að hann hafi notið þess að fá athyglina sem hann fékk.  Samtal okkar byrjaði aftur á því að við spjölluðum um daginn og veginn og svo fór hann að segja mér frá verkefni sem hann var að gera í skólanum.  Hann og þrír vinir hans voru í valnámskeiði þar sem þeir áttu að taka upp stuttmynd á dönsku.  En hann var ráðvilltur í sambandi við þetta, því vinir hans lögðu ekki eins mikið af mörkum og skyldi.  Það var erfitt að smala hópnum saman og stundum nenntu vinir hans ekkert að gera.  Hann talaði um hvað hann væri þreyttur á þessu og að hann vissi ekki hvað hann ætti að gera, því það þyrfti að skila verkefninu innan nokkurra daga.  Ég varð að passa mig á að gefa honum ekki ráð (að gefa ráð er ekki í anda aðferðarinnar, heldur að hlusta og ýta undir að manneskjan finni sjálf hvað er rétt fyrir sig) og það var nokkuð erfitt að sleppa því.  Mér fannst ég næstum því vera að svíkja hann með því að gefa honum ekki ráð og kannski var hann að bíða eftir því að ég gerði það.  Ég reyndi í stað þess að segja við hann að hann myndi finna út hvað væri best að gera.  Hann komst þó ekki að neinni lausn á meðan við sátum saman og spjölluðum.

3. kaffihúsaferð:  Eftir aðra kaffihúsaferðina hringdi hann fljótlega í mig og spurði mig hvenær við myndum fara næst á kaffihús.  Ég sagði honum að það yrði eftir nokkra daga.  Á næstu dögum hringdi hann oft í mig, bara til að spjalla.  Ég held að þessir vikulegu fundir okkar hafi skipt hann máli og hann virtist meira en áður sækja í að eiga samskipti við mig.  Kannski var það vegna þess að hann upplifði það að hann væri alger miðpunktur.  Ég veit ekki hvernig honum þótti speglunin, en í þriðju kaffihúsaferðinni hafði ég ákveðið að spegla meira en ég hafði gert.  Þegar við settumst niður byrjaði hann fyrst á því að spyrja mig hvað væri að frétta.  Ég sagði honum dálítið af því og spurði hann svo á móti hvað væri að frétta af honum.  Hann sagði mér þá frá því hvað hann hlakkaði til að fara til Danmerkur í sumar.  Ferðina hafði hann fengið í fermingargjöf.  Hann talaði um allt það sem hann ætlaði að gera í ferðinni og það kom mikið af tilfinningaorðum, sem ég speglaði; eins og „frábært,“ ,,ógeðslega gaman,“ „geggjað“ og svo framvegis.  Mér gekk miklu betur núna að spegla heldur en í fyrstu tveimur kaffihúsaferðunum.  Eiginlega finnst mér mun auðveldara að spegla orð sem tengjast þægilegum tilfinningum heldur en óþægilegum.

Samskipti mín og frænda míns hafa alltaf verið nokkuð mikil en vegna kaffihúsaferðanna hafa þau aukist.  Hann er líka núna farinn að hafa meira frumkvæði að samskiptum; hringir í mig, kemur oftar einn í heimsókn og biður mig að gera eitthvað með sér.  Ég held að þetta sé mjög mikilvægt – að unglingar fái að njóta jákvæðra samskipta við fullorðna og finna að það sé hlustað á þá.  Maður hefur á tilfinningunni að á unglingsárunum breikki krakkar bilið milli sín og fullorðinna, en það skiptir mig máli að halda í opnu samskiptin sem ég hef alltaf haft við frænda minn.  Ég held að fókusing-aðferðin geti mjög vel hjálpað mér þar.

Lokaorð
Vinnan með fókusing-aðferðina hefur gefið mér mjög mikið, sérstaklega þegar ég er að vinna með ungum börnum.  Ég held að þetta sé mikilvæg aðferð til að nota í leikskólastarfi en stundum gleymist tilfinningaþátturinn í erli dagsins.  Krökkum er svo oft sagt að hætta að gráta og harka bara af sér.  En þegar þau finna að það er hlustað á þau og tilfinningar þeirra eru virtar, öðlast þau vafalaust meira sjálfstraust, betri skilning á eigin líðan og finna fyrir meira öryggi til að vera það sem þau eru.  Þetta held ég að eigi líka við um unglinga – það er svo margt að hrærast í þeim sem okkur ber að styðja við og hlúa að.
Heimildir
Valgerður Ólafsdóttir.  200?.  Tilfinningaleikni.  Þróunarverkefni á leikskólanum Garðaborg frá árinu 2000-2004.  Reykjavík.

Valgerður Ólafsdóttir.  Ártal vantar.  Vefsíða:  http://fokusing.is/Index/Fokusingmedbornum/   [Sótt 16. apríl 2008].

Write a comment