Fokusing - Valgerdur Olafsdottir

Main menu:

Sá sem virðir ekki sjálfan sig getur ekki borið virðingu fyrir öðrum

Tilfinningaleikni

valnámskeið, haustönn 2004

Sá sem virðir ekki sjálfan sig getur ekki borið virðingu fyrir öðrum

Kóraninn

Fókusingaðferðin í vinnu með elstu börnum leikskóla

Inngangur

Á haustdögum kynntist ég ákaflega áhugaverði og mikilvægari aðferð sem heitir Fókusing.  Mikilvæga að því leyti að fókusing er aðferð sem hjálpar mér að hlusta á eigin tilfinningar og komast í tengsl við innri visku.  Með sanni var ég ansi hugsi og kvíðin í fyrstu hvað ég væri nú búin að koma mér í. En ég var ákveðin að halda þessu fókusing ferðalagi áfram því aðferðin vakti forvitni mína.  Ég sá fljótlega að ég myndi græða mikið á þessari vinnu og þarna var komið frábært tækifæri til að gera eitthvað eingöngu fyrir mig sjálfa „að vera með sjálfri mér“ eins og ég á það best skilið.  Hver vill það ekki ?  Hver vill ekki ná því að vera í betri tengslum við sjálfan sig með því að læra að hlusta á líkamann sinn að nærgætni og án eftirbreytni að uppskera betra innsæi og líkamlega slökun og vellíðan?  „Staðurinn innra með mér“ vissi að þetta var rétt fyrir mig. Þegar góðir hlutir gerast hafa þeir tilhneigingu til að breiða úr sér og ég sá fljótt að ég gæti svo sannarlega nýtt mér margt úr aðferðinni í vinnu minni á leikskólanum.

Ég mun færa rök fyrir því afhverju ég ætla að nota fókusingaðferðna í vinnu með börnunum og vitna meðal annars í Aðalnámskrá leikskóla.  Einnig er að finna umfjöllun um fókusingviðhorfin og þau atriði sem ég mun leggja áherslu á.  Í lokin set ég fram þrjár hugmyndir af vinnustundum.  Aftast er að finna ánægju, gleði og vináttusöngva sem hægt er að nota í verkefnum.

Fókusing í leikskólanum

Ég er hópstjóri elstu barnanna í litlum leikskóla í Reykjavík þar sem unnið er samkvæmt Hjallastefnunni .  Í handbók Hjallastefnunnar sem er okkar vinnuplagg má finna eftirfarandi:

Nálægðarkennsla – vinátta.  „Skapa kærleikstengsl milli allra. Rósemi og minnkun á streitu. Auka kjark í nálægð, snertingu og umhyggju “ (Handbók Hjallastefnunnar.1999:41).

Göfug, góð og gild markmið og ekki ólík því sem fram kemur í markmiðum fókusingaðferðinnar.  Ég sá því fljótt að tileinka sér fókusingviðhorf í starfi með börnum er góð aðferð til að ná settu marki.  Í raun hef ég unnið með atriði innan aðferðinnar án þess hafa getað sett orð á það þ.e.a.s. að ég hafi verið að nota einhverja ákveðna aðferð.  En það skemmtilega við þetta starf er að maður getur alltaf gert betur og ætla ég að nýta mér eftirfarandi þætti fókusingaðferðinnar markvissar.

Daglega

Að nota fókusingviðhorf í daglegum samskiptum við börnin.
Að beita virkri hlustun í daglegum samskiptum, gefa mér tíma að hlusta og vera með barninu ekki hjá því!
Í skipulagðri vinnu

Efla tilfinningaþroska og sjálfsmynd barnanna með því að hjálpa þeim að vera meðvituð um tilfinningar sínar og finna þeim stað í líkamanum.  Teikna líðan og tilfinningar.
Að vinna með elstu börnin í hóp þar sem unnið er með líkamskynjun í leik og samskiptum, þar sem athyglinni er beint að þeim tilfinningum sem börnin upplifa.
Að kenna þeim að þau eiga „stað innra með sér“ sem veit hvað sé best fyrir þau.  Staður sem þau geta treyst og unnið útfrá tilfinningunni sem kemur upp í leik og samskiptum við aðra.  Að þau læri að hlusta á sjálft sig að virðingu.
Að börnin læri að hlusta á aðra af virðingu í umræðum og öðru starfi innan leikskólans.
Fókusing með börnum felst fyrst og fremst í því að skapa umhverfi sem einkennist af fókusingviðhorfum, þ.e. öryggi, opnum hug, samhyggð, nærgætni, vináttu og virðingu. Skapa andrúmsloft þar sem börnunum býst möguleiki á að vaxa sem einstaklingar og vera meðvituð um tilfinningar sínar og bera ábyrgð á þeim.  Þar sem þeim er veitt tækifæri og þau hvött til að ræða um tilfinningar sínar, bæði eigin og annarra, góðar og slæmar. Kennarinn er með barninu „þar sem það er“ og gefur sér tíma til að hlusta á það og ber virðingu fyrir því hvað barnið er að upplifa, speglar upplifanir þess á fókusing hátt með virkri hlustun.  Kennarinn reynir ekki að breyta barninu á nokkurn hátt né því sem það eru að ganga í gegnum. Skipulagt starf getur verið að teikna og mála líðan og tilfinningar, nota leir, hreyfingu, nudd og hlutverkaleiki með opinni tjáningu (Valgerður Ólafsdóttir 2004). Þessi atriði eru mjög í samræmi við markmið Aðalnámskrá leikskóla að rækta eigi alhliða þroska barnsins, hlúa að þeim, efla þá og örva í gegnum skapandi starf og leik.  Hlúa eigi að tilfinningaþroskann með því að:

Búa barni umhverfi sem öryggi, hlýju og festu
Kenna barni að bera virðingu fyrir sjálfu sér og öðrum
Efla sjálfstraust barns og trú á eigin getu
Veita barni frelsi til að tjá tilfinningar sínar, reiði, ótta , gleði og sorg
Veita barni aðstoð í erfiðleikum þess (Aðalnámskrá leikskóla 1999:8-9).
Samhljómurinn er slíkur að halda mætti að þessi markmið séu saminn með fókusingaðferðina í huga.  Til að ná markmiðum mínum er ég búin að skipuleggja hugmyndir af þremur vinnustundum þar sem unnið er með fókusingviðhorfin, tilfinningar/tilfinningarorð og líkamskynjunina.  Hugmyndir sótti ég meðal annars í námsefnið Spor 2 sem er lífsleikninámsefni eftir Elínu Elísabetu Jóhannsdóttur. Í leikskólanum er mikið um söng og notum við hvert tækifæri til að syngja saman.  Söngur er samofinn tilfinningum.  Við getum sungið söngva sem lýsa því hvernig okkur líður og gleðja hugann og tjá tilfinningar. Gleðisöngvar t.d. geta sefað reiði, kvíða og sorgir það getur því verið gott fyrir hvern og einn að grípa til söngva þegar þannig liggur á honum.  Lagið Siggi var úti er söngur sem fjallar um ótta og Bráðum kemur betri tíð felur í sér mikla bjartsýni, Göngulagið er kjarksöngur og ljóðið um Fingurnar fjallar um sátt og samlyndi (Elín Elísabet Jóhannsdóttir 2004).  Svona mætti lengi telja og læt ég fylgja með nokkra ánægju, gleði og vináttu söngva.  Í vinnustund 1 er allur hópurinn saman til að fá fleiri hugmyndir að tilfinningarorðum og reynslusögum.  Tilfinningaspjöldin af Frú Tilfinningu er hægt að nota í umræðum í fyrstu vinnustundinni.  Mín reynsla er sú að það er gott að sýna myndir og setja upp aðstæður sem tekur á mismunandi tilfinningum.  Það gefur kennaranum tækifæri á að útskýra hlutina betur, jafnframt hafa börn á leikskóla þörf fyrir eitthvað áþreifanlegt til að skilja hlutina rétt.  Í vinnustund 2 og 3 mun ég skipta þeim í tvo hópa svo það sé auðveldara fyrir mig að vera með barninu og hlusta á upplifanir þess.

Vinnustund 1

Við höfum tilfinningar – og stað innra með okkur

Við finnum tilfinningarnar okkar í líkamanum.  Við fáum t.d. kökk í hálsinn þegar við erum sorgmædd, í magann þegar við erum kvíðin og við finnum fyrir notalegheitum þegar okkur líður vel.  Líkaminn er því okkar tæki til að skynja tilfinningar okkar með.
Upphaf og endir vinnustundar

Hverja vinnustund byrjum við með því að haldast í hendur og segja „velkomin í vinnustund kæru vinir,“  hægt er að spila rólega tónlist á meðan.  Einnig ljúkum við hverri vinnustund á sama hátt en segjum þá „takk fyrir vinnustundina kæru vinir“ og í lokin fáum við stórt vinarknús frá einhverjum í hópnum (þau sem vilja).

Umræður

Ræða má eftirfarandi atriði til að auka orðaforða barnanna á tilfinningorðum og fá þau til að hugsa um hvað tilfinningar eru.  Mikilvægt er að eitt barn hafi orðið í einu á meðan hin hlusta.

Hvernig sýnum við tilfinningar okkar?
Hvar eru tilfinningarnar okkar? Hvar í líkamanum?
Hvernig tilfinningar höfum við?
Hvernig getum við séð hvernig öðrum líður?
Hvernig líður okkur þegar einhver strýkur okkur um kollinn, bakið, kítlar okkur, stríðir okkur? Hvernig er sú tilfinning?
Hvernig er tilfinningin þegar við meiðum okkur?
Afhverju verðum við reið?
Hvað veldur því að við erum stundum feimin, hvernig tilfinning er það?
Hvernig getum við hugsað vel um okkur sjálf?
Hvað þurfum við að gera svo okkur líði vel?
Hvernig líður okkur þegar engin vill leika við okkur, hvernig tilfinning er það?
Hvernig líður okkur að eiga góðan vin?
Við höfum „stað innra með okkur“ sem veit hvað er best fyrir okkur?  Hvar er ykkar staður?

Orðaforði

Ánægð, kát, glöð, sorgmædd, feimin, fúl, sæl, döpur, efins, himinlifandi, þreytt, kvíðin, tilhlökkun, einmana, hrædd, óhrædd, tapsár, skelfd, undrandi, spennt, áhyggjufull, fýla, bjartsýn.
Orðin má skrifa á flettitölfu eða langan renning. Einnig er hægt að nota myndirnar af Frú Tilfinningu sér til hjálpar og upprifjunar á tilfinningarorðum.
Teikna

Börnin teikna staðinn innra með sér sem veit hvað er best fyrir þau.  Einnig geta þau teiknað hvernig þeim líður.

Gríman og speglun

Börnin fá litla spegla og æfa ýmis svipbrigði sem sýna tilfinningar. Þar sem ég hef aðgang að ljósmyndavél ætla ég að taka myndir af börnunum sem verður síðan sett saman í bók.  Ef tími gefst er hægt að fara í þennan leik.  Börnin sitja á móti kennaranum.  Kennarinn hylur andlitið í höndum sér.  Þegar hann tekur hendurnar frá andlitinu er ákveðinn svipbrigði sem sýna tilfinningar, kennarinn hefur sett upp „grímu” sem er frosinn og helst kyrr.  Börnin herma eftir. Kennarinn spyr börnin um líðan á bak við þá grímu sem er verið að sýna.

Söngur

Tilfinningablús

Ég heiti Frú Tilfinning
Vinnustund 2

Tilfinningalíf

Upphaf og endir vinnustundar

Byrjum á því að haldast í hendur og segjum „velkomin í vinnustund kæru vinir,“ hægt er að spila rólega tónlist á meðan.  Einnig ljúkum við hverri vinnustund á sama hátt en segjum þá „takk fyrir vinnustundina kæru vinir“ og í lokin fáum við stórt vinarknús frá einhverjum í hópnum (þau sem vilja).

Nokkur tóndæmi

Markmiðið er að spila mismunandi tónlist sem kallar fram mismunandi tilfinningar.  Þannig færist umræðan frá líkamanum eða frá því hlutbundna að innra tilfinningalífi.

Spennu (kvikmyndatónlist, Tommi og Jenni)

Ró (vögguvísur, klassík tónlist, slökunar tónlist)

Æsing (Sverðdansinn)

Kátína (sniðugt barnalag t.d. Krúsílísus eða Hattur og fattur)

Ótta (Pétur og úlfurinn, drungalega tónlist)

Sorg (Kveðja eftir Bubba Morthens, jarðarfaratónlist)

Þetta erum eingöngu hugmyndir þessi listi er engan veginn tæmandi.

Hlustun og hreyfing – 4 í hóp

Á meðan börnin hlusta mega þau hreyfa sig í takt við tóndæmið.  Eftir hvert tóndæmi mun ég spyrja hvert barn hvernig því leið og hvaða tilfinningu þau voru að sýna með hreyfingunni.  Hvar í líkamanum þau finna tilfinninguna.  Geta þau sett orð á hana eða kannski lit?

Hlustun og málun

Tilfinningarnar sem koma upp málaðar á blað.  Hægt er að spila tóndæmin aftur.  Hvert barn segir frá sinni upplifun hvar í líkamanum þau fundu tilfinninguna og hvernig því leið, leið þeim öðruvísi þegar þau dönsuðu?

Hafa þarf í huga að við upplifum ekki öll hlutina eins, allar tilfinningar eru réttar.  Tilfinningar eru bara tilfinningar, engin hefur rétt fyrir sér eða rangt.  Hér má einnig nota annan efnivið en málingu t.d. leir.

Steinninn látinn ganga

Börnin sitja í hring.  Fallegur steinn er látinn ganga á milli barnanna.  Það barn sem hefur hefur steininn á að tala.  Hinir hlusta á meðan.  Sá sem heldur á steinum á að ljúka eftirfarandi setningum, kennarinn getur valið setningu í fyrstu, síðan geta börnin samið sjálf setningar að vild.

Ég vil ekki láta stíða mér af því að…

Ég er glöð í dag af því að….

Ég ætla ekki að stríða öðrum af því að…

Ég er góð vinkona/vinur af því að….

Og svona má lengi halda áfram
Söngur

Óðurinn til gleðinnar

Vinnustund 3

Að láta öðrum líða vel – að finna það í líkamanum

Upphaf og endir vinnustundar

Byrjum á því að haldast í hendur og segja „velkomin í vinnustund kæru vinir,“  hægt er að spila rólega tónlist á meðan.  Einnig ljúkum við hverri vinnustund á sama hátt en segjum þá „takk fyrir vinnustundina kæru vinir“ og í lokin fáum við stórt vinarknús frá einhverjum í hópnum (þau sem vilja).

Áður en að nuddið byrja hugsa allir sér aðstæður sem þeim líður ótrúlega vel í.
Penslanudd – 4 í hóp tveir og tveir saman

Róleg tónlist er leikinn.  Annað hvert barn fær mjúkan þurran pensil.  Börnin vinna saman tvö og tvö og þau eiga að pensla hvort annað til skiptis í dálitla stund.  Þau eiga að gera langar strokur á beran handlegg, fótlegg eða andlit félaga síns.  Stokurnar eiga að vera rólegar í takt við tónlistina.

Ef einhver vill ekki svona nudd er sjálfsagt að hlusta á það og leyfa því barni að ráða hvað er best fyrir það sjálft.  Barnið ræður ferðinni.
Ég geng á milli og spyr þau hvernig gangi, og hvort að þetta sé í lagi fyrir þau, að fá svona penslanudd.  Ég spyr einnig hvernig þeim líði á meðan á nuddinu stendur og hvar í líkamanum þau finni þetta góða eða það sem kemur upp.

Aðrar hugmyndir

Boltanudd, börnin nudda hvort annað með litlum bolta.

Hárgreiðsla, fá greiður og bursta greiða hvort öðru.

Axlarnudd, allir sitja í hring og nudda axlir á þeim fyrir framan.

Öndunar og slökunaræfingar, margar góðar hugmyndir er að finna í bókinni Snerting, jóga og slökun eftir Elínu Jónasdóttur og Sigurlaugu Einarsdóttur.

Eftir nuddið er hægt að fara í þennan leik.  Einnig er sniðugt að nota þennan leik alltaf þegar tími gefst til.

Steinninn látinn ganga

Börnin sitja í hring.  Fallegur steinn er látinn ganga á milli barnanna.  Það barn sem hefur hefur steininn á að tala.  Hinir hlusta á meðan.  Sá sem heldur á steinum á að ljúka eftirfarandi setningum, kennarinn getur valið setningu í fyrstu, síðan geta börnin samið sjálf setningar að vild.

Ég vil láta nudda mig því mér finnst það …..

Ég vil ekki láta stríða mér af því að…

Ég er glöð í dag af því að….

Ég ætla ekki að stríða öðrum af því að…

Ég er góð vinkona/vinur af því að….

Og svona má lengi halda áfram
Söngur

Vinarlagið, Lítill heimur, Fingurkoss

Ánægju, gleði og vináttusöngvar

Vinarlagið

Við erum vinir, við erum vinir

Við erum vinir

trallllalaatralla

Við erum vinir við erum vinir

Við erum vinir hér á (nafn leikskólans sett inn)……

(síðan er hægt að bæta inní öðrum orðum t.d. falleg, dugleg, glöð….)

Fingurkoss

Ég sendi þér fingurkoss, ég sendi þér fingurkoss

því við erum allra bestu, bestu, bestu,

vinir, vinir, allra bestu, bestu, bestu vinir.

Ég vinka og veifa þér, ég vinka og veifa þér

Því við erum……
Við höldumst hönd í hönd, og styrkjum vinuáttubönd

Því við erum……
Óðurinn til gleðinnar

Fagra gleði, guða logi,
Gimlis dóttir, heill sé þér.
Í þinn hásal, hrifnir eldi,

heilög gyðja komum vér.

Þínir blíðu töfrar tengja,

tískan meðan sundur slær,

allir bræður aftur verða

yndisvængjum þínum nær.

Broslagið

Það er ókeypis að b r o s a

Það er ókeypis að b r o s a

Það er ókeypis að b r o s a

að  b  r  o  s  a    –   B R O S A

Setja inn tilfinningorð

Lítill heimur

Þar er gott að vera sem gleðin býr,

þar sem gerast sögur og ævintýr,

svona er veröldin okkar

sem laðar og lokkar

svo ljúf og hýr.
Lítill heimur ljúfur, hýr

lítill heimur ljúfur, hýr

lítill heimur ljúfur, hýr

eins og ævintýr.
Tilfinningablús

Ég finn það ofan í maga o-ho

Ég finn það niður í fætur o-ho

Ég finn það fram í hendur o-ho

Ég finn það upp í höfuð o-ho

Ég finn það hér og hér og hér

og hér og hér og hér og hér hvað ég er glöð (reið,leið, þreytt, hress, hrædd osfrv,).
Göngulagið

Lag og ljóð: Tryggvi Þorsteinsson

Þótt gangan sé erfið og leiðin sé löng

við léttum oss sporið með þessum söng.

Ef þung reynist byrgðin og brekkan er há:

Brosum, brosum krakkar þá.
Þótt bylji hríð og blási kalt,

brosið er sólskin sem vermir allt

og bræðir úr hugskoti bölsýnis ís.

Brosum, þá er sigur vís.
Enginn er verri þótt vökni í gegn

og vitaskuld fáum við steypiregn.

Við látum ei armæðu á okkur fá,

brosum, brosum krakkar þá.
Þótt bylji hríð .

Lokaorð

Fókusing á heima inná leikskólunum að mínu mati og er nauðsynleg viðbót ekki eingöngu í skipulögðum vinnustundum heldur í öllu daglegu starfi leikskólans.  Börn hafa rétt á því að á þau er hlustað með virðingu og þeim skapað umhverfi sem einkennist á fókusingviðhorfum.  Með því að innræta hjá ungum börnum að hugsa, skoða, og skilja tilfinningar sínar og annarra veitir þeim meiri færni til að takast á í samskiptum við aðra og sambúðina við sjálft sig.  Þetta er fyrsta skrefið mitt til að vinna með fókusing í skipulagðu starfi með börnunum, næst er að prófa fókusingleikinn en til þess þarf meira svigrúm í dagskipulagi.  Vonandi verður þetta til þess að börnin verði meðvitaðari um hvernig þeim og öðrum í umhverfinu líður og geti tjáð sig um það.

Heimildaskrá
Aðalnámsskrá leikskóla. 1999. Menntamálaráðuneytið, Reykjavík.

Elín Elísabet Jóhannsdóttir. 2004. 4. nóvember.  SPOR 2, Kennsluleiðbeiningar bls: 6.

Vefslóð:  http://www.nams.is/lifsleikni/Spor_2_klb.pdf
Valgerður Ólafsdóttir. 2004. 4. nóvember.  „Við getum aðeins hlustað eins vel á aðra og við hlustum á okkur sjálf.“  Vefslóð http://www.fokusing.is
Margrét Pála Ólafsdóttir. 1999. Hjallastefnan leikskóli frá hugmynd til framkvæmda, handbók, hefti  1. Hjallastefnan ehf, Reykjavík.

Söngvar sóttir í söngvasafn leikskólans Klappir.
Vefslóð: http://www.klappir.akureyri.is

Write a comment