Fokusing - Valgerdur Olafsdottir

Main menu:

Fókusing sem aðferð til sjálfsskoðunar

Lokaverkefni

Ég ákvað í þessu lokaverkefni að einblína á sjálfa mig. Fyrir nokkru gekk í gegnum mjög erfiðar tilfinningar þar sem komið var mjög illa fram við mig og hef ég í rauninni ekki náð mér að fullu eftir það. Aðalmálið fyrir mig var að vera sterk og sýna ekki að mér leið illa.. Ég gaf sjálfri mér í rauninni aldrei tíma til að jafna mig og að sama skapi afneitaði ég þeim tilfinningum sem ég fann fyrir. Það má í raun segja að ég hafi lokað á þær og sópað þeim undir teppið. Á sínum tíma kenndi ég sjálfri mér mikið um það sem gerðist, þrátt fyrir að ég viðurkenndi það ekki fyrir öðrum. Í dag hefur það að mestu leyti breyst en ákveðin arða situr þrátt fyrir allt enn eftir, þar sem ég skamma mig stundum fyrir að hafa gert þetta og hitt sem leiddi til þess að hlutirnir fóru eins og þeir fóru. Ég hef í raun ekki viðurkennt það fyrir neinum að ég líti að einhverju leyti ennþá á þetta sem mína sök. Ég held að vandamálið sé að ég treysti ekki sjálfri mér fyrir þeim tilfinningum sem ég veit að búa undir niðri. Eftir að þetta námskeið hófst fór ég hins vegar að velta fyrir mér hvort ég ætti að taka af skarið og reyna að hlusta á þessar tilfinningar mínar. Sjálfri finnst mér löngu vera kominn tími á það en þangað til núna hef ég einhvern veginn ekki treyst mér í það, þar sem að ég vissi að það yrði að mörgu leyti mjög erfitt. Ég fann stundum fyrir óþægindum þegar ég mætti í tímana, ég var stressuð yfir því að þurfa að leita svona inn á mig og skoða hvað væri í gangi. Ég veit af þessari tilfinningu þarna en hef einhvern veginn ekki viðurkennt hana fyrir sjálfri mér og eins og ég hef áður sagt, skellt hurðinni á hana þegar hún hefur bankað upp á. Undanfarið hafa þó miklar breytingar átt sér stað og í kjölfar námskeiðsins ákvað ég að fara að gera upp þessi mál.

Ég byrja því að fjalla um hvað felst í því að fókusera. Þegar því er lokið fer ég út í persónulegri mál og tengi mína eigin reynslu við fræðin.

Að fókusera

Fókusing/tilfinningaleikni er líkamstengd athöfn sem samanstendur af sjálfsvitund og tilfinningalegri lækningu ef svo má að orði komast. Fókusing snýst í rauninni um að taka eftir tilfinningum okkar, það er hvernig okkur líður og eiga síðan eins konar samtal við þær, þar sem maður gerir í rauninni ekkert nema að hlusta á þær. Athöfnin að fókusera hefst í raun á þekktri tilfinningu í líkamanum, sem við getum ekki fest orð á. Þessi tilfinning er eitthvað sem við höfum fundið fyrir áður og tengist þeim athöfnum sem eru í gangi í lífi okkar hverju sinni. Til dæmis fáum við sérstaka tilfinningu í magann þegar við þurfum að standa frammi fyrir hóp af fólki og tala og enn aðra þegar við mætum til að mynda fyrrverandi maka. Þetta eru líkamsskynjanir sem hafa einhverja ákveðna merkingu fyrir hvert og eitt okkar, líkaminn reynir að koma til skila ákveðnum upplýsingum. Því er hægt að segja að líkami okkar sé eins konar tæki sem við notfærum okkur til að skynja tilfinningar okkar. Ef við erum á hinn bóginn ekki í góðu sambandi við þær tilfinningar sem við finnum fyrir, hlustum ekki á þær eða látum eins og þær séu ekki til, þá geta þær safnast upp, óuppgerðar í líkama okkar. Það getur haft veruleg áhrif á okkur, verið til ama og jafnvel valdið sjúkdómum (Valgerður Ólafsdóttir [án árs]). Það sem við gerum flest öll, þegar við finnum fyrir þess konar tilfinningum, er að reyna að losa okkur við þær. Við eigum það ef til vill flest til að blóta þessum tilfinningum og ef til vill spyrja okkur: ,,af hverju þarf þessi helvítis tilfinning að koma upp núna?” eða ,,ef ég væri betri í að tala þá væri ég ekki að finna fyrir þessu núna” og ,,ef ég hefði undirbúið mig betur þá væri ég ekki að finna fyrir þessu” og svo framvegis. Margir myndu ef til vill grípa til áfengis til að losna við þessar tilfinningar og enn fleiri fá sér sígarettu til að róa taugarnar (Cornell 1996:2-3). Það er til dæmis mjög algengt að þegar fólk hættir í sambandi að það leiðist út í áfengisdrykkju og á ég þá sérstaklega við ungt fólk sem stundar þá bæjarlífið af krafti. Tala ég nú bæði af eigin raun og því sem ég hef upplifað með fólkinu í kringum mig.

Við mannfólkið erum langt frá því að vera fullkomin. Við eigum til að mynda oft til að hlusta ekki á eigin tilfinningar. Að sýna tilfinningar virðist í daglegu lífi vera merki um veikleika. Konur eru til dæmis þekktari fyrir að sýna tilfinningar og hafa í gegnum tíðina verið kallaðar veikara kynið. Hvort einhver tenging er þar á milli get ég ekki fullyrt en það kæmi mér ekkert á óvart. Það er hins vegar staðreynd að ef við þekkjum ekki þessa aðferð, það er að fókusera, þá gerum við enn minna af því að hlusta á tilfinningar okkar. Það er hins vegar nauðsynlegt að við hlustum á þær og leyfum þeim að tala til okkar. Þegar við leyfum tilfinningum okkar að tala til okkar í gegnum líkamann, þá fyrst erum við opin fyrir allri þeirri dýpt sem við búum yfir. Þegar við hlustum á þær erum við einnig mun líklegri til að geta slakað á, gefið af okkur og skilað því frá okkur sem við erum að gera á skýran og yfirvegaðan hátt. Við gætum jafnvel færst fram á veg á þessum vettvangi lífs okkar sem við erum stödd á, á undraverðan, spennandi, áhugaverðan og gleðiríkan hátt (Cornell 1996:2-3).

Fókusing er ferli í 6 þrepum sem felur í sér að við hlustum á líkama okkar á mjög auðmjúkan og aðgengilega hátt. Við þurfum að heyra þau skilaboð sem okkar innra sjálf er að senda okkur. Þetta er ferli sem krefst þess að við berum mikla virðingu fyrir þeirri þekkingu sem býr innra með, við þurfum að gera okkur grein fyrir að sú þekking sem býr í undirmeðvitundinni talar til okkar í gegnum líkama okkar (Cornell 1996:2-3). Upppskeran verður þá betri innsýn, líkamleg slökun og jákvæðar breytingar á lífinu yfir höfuð. Við lærum að skilja okkur sjálf betur, okkur líður betur og við högum okkur á þá vegu sem eru mun líklegri til að veita okkur það líf sem við viljum (Cornell 1996:2-3).

Fókusing er ekki endilega notuð í einhverjum einum sérstökum tilgangi. Hún á að geta gagnast manni á marga vegu. Til að mynda þegar tilfinningar manns eru svo sterkar að þær þyrma yfir mann eins og til dæmis leiði, hræðsla, reiði, söknuður og svo framvegis. Þessar tilfinningar geta þyrmt yfir okkur eins og öldur hafsins eða sterkar vindhviður og okkur líður eins og við séum ein í heiminum og gjörsamlega hjálparlaus gagnvart þessum sterku öflum. Þrátt fyrir það eru þessar tilfinningar til staðar af einhverri ástæðu. Þær hafa ákveðna sögu að segja og þær eru hluti af okkur. Ef við förum þá leið að fókusera getum við heyrt hvaða sögu þessar tilfinningar hafa að segja og fengið af gjöf, ef svo má að orði komast, þá þekkingu sem þær búa yfir, í stað þess að þær séu okkur yfirþyrmandi. Með því að fókusera lærum við að eiga í þægilegu sambandi við sterkar tilfinningar, það er hvernig við eigum að viðurkenna þær og hlusta á þær, í staðinn fyrir að reyna að bæla þær niður (Cornell 1996:6-7).

Til að útskýra nánar hvernig við nálgumst tilfinningar okkar með því að fókusera tökum við dæmi. Við erum stödd úti í skógi. Þar stöndum við kyrr og hljóðlát meðan við tökum inn alla fegurðina. Allt í einu sjáum við lítið dýr, gægjast á milli trjánna. Fyrir vitum við að þetta dýr er okkur ekki hættulegt og við viljum gera allt til þess að láta því finnast það öruggt þrátt fyrir að við séum þarna. Hvað gerum við? Við myndum að minnsta kosti ekki hlaupa í áttina að því og við myndum ekki kalla á það. Við myndum hins vegar standa kyrr og vera þolinmóð. Við myndum síðan hreyfa okkur hægt og rólega, reyna að sýna dýrinu nærgætni og áhuga og fylgjast vandlega með því hvort það gæfi frá sér einhver merki um að við mættum koma nær. Alveg eins og þetta litla dýr þarf að fullvissa sig um að okkur sé treystandi þurfa tilfinningar okkar að geta treyst að um sé að ræða öruggan stað áður en þær geta komið upp á yfirborðið (Cornell 1996:15). Umfram allt þurfum við að sýna okkur sjálfum vinskap, virðingu, nærfærni og nærveru (Valgerður Ólafsdóttir [Án árs]).

Það er mörgum eðlislægt og þar á meðal mér, að dæma líðan sína um leið og fundið er fyrir henni. Maður hugsar með sér að manni eigi alls ekki að líða svona eða þetta sé nú ekki jafnslæmt og Jón eða Gunna lentu í hér um árið. Einnig getur maður leiðst út í að reyna að sálgreina tilfinningar sínar og spyrja síðan sjálfan sig af hverju og hvers vegna manni þurfi nú endilega að líða svona? Af hverju maður geti ekki gleymt þessu og haldið áfram? (Cornell 1996:16-17). Í sumar eru tvö ár siðan ég gekk í gegnum mín erfiðu sambandsslit. Í tvö ár er ég búin að bæla tilfinningar mínar niðri, reyna að ýta þeim í burtu og í rauninni skella hurðinni á þær. Ég er alltaf að sjá það betur og betur að þessi aðferð mín er ekki að bera árangur. Fyrr eða seinna þarf maður að takast á við þess konar tilfinningar. Þess konar aðferðir, til að mynda að bæla niður tilfinningarnar, eru ekki árangursríkar og í hvert skipti sem ég dæmdi sjálfa mig fyrir þessar tilfinningar eða reyndi að gleyma þeim og bæla þær niður, reyndi að tala mig útúr þeim og skilja hvers vegna ég gætt ekki sagt skilið við þær, var ég á sama stað og haggaðist ekki. Ég færðist ekki úr stað og leið oft illa í framhaldi (Cornell 1996:16). Ég reyndi oft að telja mér trú um að ég væri komin yfir allar þessar tilfinningar og oft leið mér þannig. Hins vegar áttu þessar tilfinningar það til að þyrma yfir mig. Ég tók því þá ákvörðun að fara upp í sumarbústað og gefa mér nokkra daga í sjálfa mig og einungis sjálfa mig Ég velti lengi fyrir mér meðan ég lá í sófanum hvort ég ætti að reyna núna eða bíða aðeins lengur. Eitthvað sagði mér þó að standa á lappir og ganga niður að vatni, sem ég gerði og þar fann ég girnilegan stein og settist þar niður. Þarna sat ég, hversu lengi veit ég hreinlega ekki, og hugsaði. Ég lokaði augunum og lét hugann reika. Þessi athöfn mín myndi flokkast undir fyrsta þrep ferlisins en í því felst að búa sér til rými og hreinsa til. Því næst fór ég að einbeita mér að líkamsskynjuninni sem er næsta þrep. Ég byrjaði á því að einbeita mér að öxlunum og svæðinu þar í kring, síðan færði ég mig niður í hendur, þaðan niður í maga, niður í fætur og svo niður í tær. Eftir að hafa slakað vel á þarna í fjöruborðinu dró ég djúpt að mér andann og lét hugann reika. Þriðja þrepið felur í sér að taka eftir hvar og ef til vill hvað það er sem við finnum fyrir. Getum við ef til vill sett orð á þessa tilfinningu sem við finnum fyrir? Það kom mér í raun ekki á óvart hversu snögg ég var að staðsetja einhvers konar óþægindi, en ég fann fyrir einhverju í kringum bringusvæðið. Að sama skapi var ég ekki lengi að finna orð á óþægindin en þau voru söknuður, reiði, hræðsla og höfnun. Ég sá fyrir mér stóra stálhendi sem kreisti eitthvað þarna í kringum bringusvæðið og í hvert skipti sem hún kreisti þá fann ég fyrir þessum óþægindum. Það var eins og einhvers konar blanda af reiði og söknuði, sem og hræðslu við að vera hafnað ef ég myndi opna mig að nýju. Fjórða þrepið felur í sér að máta orðin enn frekar og finna hvort líkaminn sé sammála þessum orðum. Þegar ég fór að máta þessi orð mín sem mér fannst passa fann ég fyrir ótrúlegum létti. Þarna loksins viðurkenndi ég fyrir sjálfri mér að þessar tilfinningar væru til staðar. Fimmta þrepið felur í sér að við spyrjum líkamann spurninga, til að mynda hvaða tilfinning þetta sé. Mjög mikilvægt er þó að spyrja líkamann fyrst hvort það sé í lagi að við spyrjum nokkurra spurninga. Markmiðið er að fá svar, hvers lags skiptir ekki máli. Það gagnast okkur jafnvel að líkaminn svari okkur á þann hátt að hann viðurkenni þessa tilfinningu en sé ekki tilbúinn til að ræða hana frekar að svo stöddu. Sjötta þrepið felur í raun í sér viðurkenningu. Við þurfum að viðurkenna það sem við upplifðum og vera tilbúin að taka á móti því. Við eigum að vera ánægð með þær upplýsingar sem við fengum og þakka kærlega fyrir okkur. Það sem fram hefur komið nú þegar er eitthvað sem við munum búa að og getum komið að seinna og því er mjög nauðsynlegt að hlúa að því og reyna að komast hjá því að hleypa eigin gagnrýni að því (Valgerður Ólafsdóttir [án árs]).
Í mínu tilviki tel ég að umhverfið hafi haft mikil áhrif á hversu vel mér gekk að hlusta á tilfinningar mínar í líkamanum. Þarna var ég, alein niður við vatnið, fuglasöngur allt í kring, laus við alla þá truflun sem fylgir því að búa í borginni. Það voru engir bílar, engin tölva, enginn sími og ekkert fólk í kringum mig.

Þegar ég lít yfir ferlið held ég að það erfiðasta hafi verið að viðurkenna tilfinningarnar fyrir sjálfri mér. Við, mannfólkið, erum ótrúlega klár í að telja okkur trú um eitthvað sem er ef til vill alls ekkert rétt, láta engan bilbug á okkur finna og standa við það fram í rauðan dauðann. Sjálf hef ég talið mér sem og öðrum trú um, í langan langan tíma, að mér líði vel og ég sé búin að fyrirgefa og gleyma. Þetta er hins vegar ekki satt, ég held að ég geti ekki verið búin að fyrirgefa á meðan ég finn enn þá fyrir þessari tilfinningu. Ég held að ég þurfi að vinna úr henni fyrst. Þetta er að mínu mati eins og hjá alkóhólistum, fyrsta skrefið er að viðurkenna vandann. Með því að viðurkenna tilfinningar sínar gæti maður þó haldið að þær myndu magnast eða þá að maður liti svo á að maður væri að gefa þeim leyfi til að magnast. Staðreyndin er hins vegar sú að svo er ekki, þvert á móti. Þegar við lokum á tilfinningar okkar magnast þær og verða mun sársaukafyllri heldur en þær yrðu ef við myndum hreinlega viðurkenna þær, leyfa þeim að vera og “ræða” við þær. Það er ferli sem leiðir til breytinga (Cornell 1996:16).

Lokaorð

Ég tók þá ákvörðun að einblína á sjálfa mig í þessu lokaverkefni og ég sé ekki eftir því. Að mínu mati hugsar maður aldrei nóg um sjálfan sig. Við lærum í rauninni, og þá sérstaklega konur, að setja annarra tilfinningar og þarfir fram fyrir okkar eigin. Ég persónulega hafði ótrúlega gott af þessari sjálfskoðun og tel mig hafa náð miklum árangri. Ég hafði byggt upp mikla spennu í líkamanum með því að afneita tilfinningum mínum á þann hátt sem ég gerði og eins og áður hefur komið fram getur það aldrei verið jákvætt. Ég viðurkenni að ég er búin að vera óttalega skrítin síðustu daga eftir þessa sjálfskoðun og tengi ég það að öllu leyti við það sem ég hef verið að gera upp undanfarna daga. Þetta hefur tekið á, en er vel þess virði.

Að lokum vil ég þakka kærlega fyrir veturinn sem og áhugavert námskeið. Ég hef lært ótrúlega mikið og hef mikla trú á því að þessi aðferði eigi eftir að gagnast mér mikið í framtíðinni, hvort sem er í atvinnulífinu eða einkalífinu.

Write a comment