Fokusing - Valgerdur Olafsdottir

Main menu:

MBL Þróunarverkefni í leikskólanum Garðaborg í Reykjavík

“Við getum aðeins hlustað eins vel á aðra og við hlustum á okkur sjálf”

16.07.2007

– þróunarverkefni í leikskólanum Garðaborg í Reykjavík

Leikskólinn Garðaborg er í lágreistu húsi við Bústaðavegínn, þar hefur hann kúrt síðustu nítján árin. Þetta er tveggja deilda leikskóli með 58 börnum, leikskólastjóri er Kristín Einarsdóttir, hún býður okkur velkomin og sýnir okkur skólann sinn. Á göngu um skólann segir hún okkur frá starfinu og þeirri stefnu sem þar er framfylgt en hún gengur meðal annars út á opið leikefni og að engin hefðbundin leikföng eru í skólanum.

Á yngri deildinni eru upprennandi leikarar að setja á svið söguna um Geiturnar þrjár og skipað hefur verið í öll hlutverkin. „Hver trampar á brúnni minn?” ómar á eftir okkur Kristínu þegar við færum okkur yfir á stóru deildina. Þar hafa krakkarnir komið sér upp fangelsi úr stórum trékubbum og þar fara líka fram blómleg viðskipti með peninga, að vísu ljósritaða peninga en í hugum barnanna skiptir það engu máli því að ímyndunaraflið er ekki langt undan í Garðaborg.
Þegar okkur ber að garði er stór hluti krakkanna að leik úti á lóðinní. Öll eru þau klædd litskrúðugum regngöllum og húfum, enda allra veðra von á Íslandi á þessum árstíma. Á örfáum mínútum skartaði veðurguðinn hagléli, rigningu, sól og snjó og börnin undu glöð við sitt enda lóðin full af vatni – og hvað er skemmtilegra en að sulla í pollum?

Að komast í snertingu við tilfinningar sínar
Krakkarnir í Garðaborg taka þátt í þróunarverkefni sem kennt er við dr. Eugene Gendlin prófessor við heimspeki- og sálfræðideild Háskólans í Chicago, það nefnist „Focusing” og er hér eftir ritað „fókusing” í greininni þar sem hefð hefur skapast fyrir því að nota orðið á þann hátt. Margra ára rannsóknir liggja að baki verkefninu.
„Rannsóknir þessar leiddu í ljós að fólk sem kemst í nána snertingu við tilfinningar sínar á mun meiri möguleika á að komast í gegnum erfið tímabil á ævi sinni en þeir sem búa ekki yfir þessum hæfileika. Það kom einnig í ljós að þótt sumir hafi þennan hæfileika en aðrir ekki má kenna aðferðina og hver sem er getur lært hana. Hún byggist fyrst og fremst á því að læra á tilfinningar sínar með því að finna þeim stað í líkamanum,” segír Valgerður Ólafsdóttir MA og löggiltur þjálfari í „fókusing” aðferðinni, hún stjórnar jafnframt þróunarverkefninu í Garðaborg en Halldóra Pétursdóttir leikskólakennari stýrir því innan skólans.
Verkefnið í Garðaborg er þannig til komið að Halldóra kynntist hugmyndum Valgerðar um „fókusing” á meðan hún var nemandi hennar við leikskólaskor Kennraháskóla Íslands og hóf í kjölfarið að stunda æfingar.
„Eftír að hafa kynnst aðferðinni langaði mig til að vinna með hana úti í leikskólunum og tengja hana starfí mínu þar. Við Valgerður ræddum hugmyndina okkar á milli og í mars árið 2000 var þróunarverkefninu ýtt úr vör í leikskólanum Garðaborg. Ég tel að í því hraða samfélagi sem við lifum í sé nauðsynlegt að þekkja tilfinningar sínar og gefa þeim tíma,” segir Halldóra og bendir á að í leikskólanum sé fyrst og fremst lögð áhersla á að skapa umhverfi sem einkennist af öryggi, opnum huga, samhygð, nærgætni og gagnkvæmri virðingu. Þessi orð má sjá víða á veggjum leikskólans en kennararnir leggja mikla áherslu á að vera með barninu „þar sem það er”, gefa sér tíma til að hlusta á það og veita því tækifærí til að tala um tilfinningar sínar. Áhersla er lögð á að láta börnin tjá sig en reyna ekki að breyta þeim né því sem þau eru að ganga í gegnum. Börnin verða meðvitaðri um hvað þau vilja og það er mikill kostur.
„Í þessari aðferð felst mikil mannvirðing og foreldrar kunna vel að meta það, verkefnið hefur verið kynnt fyrir þeim, margir hafa spurt um það og viljað komast á námskeið tíl að læra meira,” segir Halldóra og jafnframt að þótt einhver sé ekki tilbúinn til að skoða sjálfan sig og vilji ekki taka þátt í verkefninu sé það sjálfsagt mál, enginn er neyddur til að vera með, hvorki börn né starfsfólk.

Bannað að segja, hættu þessu væli
„Fókusing” byggist fyrst og fremst á því að verða meðvitaður um líkamann, upplifa tilfinningar sínar þar og komast þannig nær sjálfum sér. Valgerður segir markmiðið fyrst og fremst vera að innleiða hugmyndafræði kenninga um „fókusing” í líf barnanna og skapa aðstæður þar sem þau eru hvött tíl að verða meðvituð um tilfinningar sínar og annarra. Þeim er kennt að þau eigi stað innra með sér sem veit hvað er rétt fyrir þau.
„Við viljum stuðla að því að börnin verði meðvituð um tilfinningar sínar og fær um að tjá þær á eðlilegan hátt. Við kennum þeim líka um rétt þeirra yfir eigin líkama og þeim tilfinningum sem þau finna þar fyrir. Við viljum skapa þeim öruggt umhverfi og kenna þeim að taka á hlutunum með opnum huga, við kennum þeim samhygð og nærgætni og höfum gagnkvæma virðingu að leiðarljósi.”
Halldóra segir að lögð sé áhersla á að reyna ekki að breyta börnunum né því sem þau eru að ganga í gegnum, frekar sé tekið undir tilfinningar þeirra. „Við segjum til dæmis aldrei barni sem grætur að herða sig upp og hætta þessu voli, slíkt er ekki í anda þessarar aðferðar.” Hún bendir á að gott sé að nota aðferðina þegar um aðlögun á leikskólum er að ræða, börnum sem gengur illa að slíta tengsl við foreldrana er leyft að sakna þeirra, þau mega gráta yfir því og eru í raun hvött til að taka á tilfinningunni og tala um söknuðinn.
Tilfinningagreind er tiltölulega nýtt orð í tungumálinu en nú þegar mikið notað í uppeldisstefnum og lögð áhersla á að börn tileinki sér þau fræði og læri að nota tilfinningar sínar á jákvæðan hátt.
„Það er trú okkar að með því að kenna börnum á unga aldri að þekkja tilfinningar sínar aukist líkur á að þau verði smám saman opin fyrir eigin tilfinningum og beri jafnframt virðingu fyrir tilfinningum annarra. Á þann hátt verði þau meðvituð um sig sjálf og aðra og læri þannig betur á lífið og tilveruna,” segir Valgerður.

Risar og dvergar sem finna til í brjóstinu
Fyrstu skrefin í þróunarverkefninu í Garðaborg voru tekin með því að koma þeim hugsunarhætti og viðhorfum, sem liggja til grundvallar kenningunum, inn i umhverfi barnanna og vinna markvisst með þau. Námskeið hafði verið haldið fyrir starfsfólkið og verkefnið kynnt fyrir foreldrum. Valgerður segir okkur að næsta skref hafi verið að koma börnunum í snertingu við líkamsskynjun sína en það var gert með leikjum og í samskiptum. Markmiðið er að börnin komist smám saman að því að líkamsvitund þeirra sé þeirra eign, þeirra sannleikur sem leiði þau áfram og um leið og þau vita hvað er rétt fyrir þau sjálf verða þau meðvitaðri um hvað sé rétt fyrir aðra.
„Það er mjög mikilvægt að börnin læri að það er í lagi að verða reiður, sorgmæddur, hræddur eða hvað eina og að allar tilfinningar séu jafn réttháar. Þess vegna reynum við að spegla upplifanir þeirra á þann hátt sem við lærum á „fókusing” kenningum og gerum það markvisst í gegnum liti og teikningar,” segir Halldóra.
Verkefnið hefur nú verið í gangi í tæp tvö ár og segja þær reynsluna af því góða, börnin séu betur í stakk búin til að vita hvað þau vilja og láta ekki vaða yfír sig. Foreldrar og börn eru mjög ánægð með verkefnið og börnin eru jafnvel farin að biðja um að fá að teikna hvernig þeim líður og til að leysa úr ágreiningsefnum sem upp koma.

Blár litur í heilanum
Þennan dag voru fjórir krakkar af stóru deildinni, þau Logi Steinn Ásgeirsson, Katrín Inga Eldret, Kristín Rós Garðarsdóttir og Steingrímur Gunnarsson, stödd inni í sal og voru að vinna með „fókusing” aðferðir ásamt Halldóru og Sigríði Sigurjónsdóttur leikskólakennurum í Garðaborg. Sigríður hefur líka tekið virkan þátt í þessu starfi á leikskólanum.
Þau sitja öll í hring á gólfinu og gera öndunar- og teygjuæfingar. Þau snerta á sér hendurnar og segja hvernig þeim finnst það. Eru þær mjúkar eða harðar? Þau blása lofti í lófann á sér og spá í hvort það sé heitt eða kalt, síðan standa þau upp og gera dverga- og risaæfingar. Þau beygja sig í hnjánum og ganga eins og smáfólk. „Hvernig líður ykkur sem dvergar?” spyr Halldóra og á augabragði segir önnur stelpan að sér líði illa og hin tekur undir það. Þá spyr Halldóra hvar þeim líði illa, hvort þær geti sagt hvar í líkamanum það er. Nú breyta þau sér í risa, teygja hendur hátt til lofts og stíga þungt niður. „Hvernig líður ykkur núna?” og enn líður stelpunum illa, nú í brjóstinu. Eftir að hafa rætt það aðeins snúa kennararnir sér að því að bjóða börnunum að lita mynd og segja þeim að velja sér liti sem lýsi nákvæmlega hvernig þeim líður.
Þau setjast við borð, Kristín og Logi annars vegar og Steingrímur og Katrín hins vegar. Öll virðast þau vera í góðu jafnvægi, nota marga liti, byrja flest á bláu, grænu og gulu og bæta svo við þeim litum sem þau langar til. Sum teikna manneskjur og dýr, eitt teiknar form en litirnir segja til um hvernig líðanin er. Og í dag er allt í fína. Halldóra spyr Kristínu Rós hvers vegna hún noti bláa litinn og hvar hún finni hann í líkamanum og Kristín svarar að bragði: „Í heilanum eins og vanalega.” Logi notar marga liti og segist finna fyrir þeim öllum alls staðar í líkamanum.
Þegar krakkarnir í Garðaborg yfirgefa leikskólann og hefja nám í einhverjum af grunnskólum landsins verður spennandi að fylgjast með því hvernig þeim reiðir af í heimi sem mönnum finnst oft á tíðum mjög harður. Kannski verður „fókusing” nám þeirra í leikskólanum til þess að gera þau veiku sterkari og þau sterku enn hæfari. Og ef svo er þá er tilganginum náð.
Loks þegar við yfirgefum leikskólann eru krakkarnir í pollagöllunum löngu farin inn enda kominn kaffitími og okkur ekki til setunnar boðið. Þann tíma sem við dvöldum á Garðaborg höfum við fræðst heilmikið um lífið og tilveruna og erum fullviss um að þau börn sem þar dvelja verði hæfari einstaklingar í samskiptum fyrir vikið.
Steinunn Þorsteinsdóttir
-Úr “Skólavarðan”

Write a comment