Fokusing - Valgerdur Olafsdottir

Main menu:

Subpages for Meðvitað uppeldi:

Af hverju að hlusta

Ef við skoðum betur hvað ég meina með því að hlusta samkvæmt þessari aðferð og í þessu tilfelli á barn þá eru nokkur atriði sem standa upp úr. Þegar við hlustum þá veitum við barni nærveru – þar sem við leyfum barninu að vera og segja það sem það segir. Við sýnum barninu nærgætni og nærveru með fullri athygli og virðingu fyrir því sem barnið er að tala um og ganga í gegnum . Við speglum eitt og eitt orð af því sem barnið segir fyrst og fremst til þess að barnið finni að við erum að hlusta.
Þannig fær barnið tækifæri til þess að tala um það sem liggur því á hjarta án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því að eitthvað sé ekki “rétt” sem það segir. Ef barn elst upp við að geta treyst því að það sé einhver til staðar sem hlustar á þau þá eykst öryggiskennd þeirra.
Verkefnið Meðvitað uppeldi byggir á þeirri grundvallarhugsun að beri umhverfi barna virðingu fyrir tilfinningum þeirra og sýni það meðvitað í verki læri barnið sjálft að bera virðingu fyrir sínum tilfinningum og upplifunum sem og tilfinningum annarra, Við þannig aðstæður aukist sjálfsvirðing barna og sjálfstraust og trú á eigin hæfni og um leið fá þau sannfæringu um rétt sinn yfir eigin tilfinningum og líkama.
Að öllu þessu sögðu þá er til einfaldara svar við þessari spurningu. Barn nýtur þess að það sé hlustað á það. Og þessi tilfinning, að upplifa sig samþykktan, er mjög mikilvæg tilfinning að taka með sér úr uppeldinu og skiptir máli í lífi einstaklingsins. Ég held að við þráum öll innst inni að vera samþykkt og að það sé hlustað á okkur án þess að sá sem hlustar hafi skoðun á því sem við erum að segja. Það að hlusta þannig á aðra manneskju, fullorðinn eða barn er að mínu mati góð aðferð og einföld til að samþykkja einstaklinginn. Og öll börn eiga skilið að alast upp í þannig umhverfi.