Fokusing - Valgerdur Olafsdottir

Main menu:

Verkefnið á Garðaborg

Fókusing verkefnið á leikskólanum Garðaborg

Í mars 2000 hófst kennsla í fókusing fyrir leikskólakennara og starfsfólk á leikskólanum Garðaborg í Reykjavík. Fyrstu skref fókusingstarfsins á Garðaborg voru tekin með því að koma þeim hugsunarhætti eða viðhorfum sem liggja til grundvallar fókusingkenningarinnar inní umhverfi barnanna. Þau viðhorf byggja á því að til staðar sé öryggi, opinn hugur, samhyggð, nærgætni og gagnkvæm virðing.

Það gefur auga leið að enginn getur komist í nána snertingu við sig sjálfan án þess að umhverfið veiti það öryggi og sýni þá virðingu sem slíkt krefst, bæði sjálfum sér og öðrum til handa. Mikilvægt er að þessi þemu verði hluti af öllu starfi innan skólans. Unnið var markvisst með þessa undirstöðu á vikulegum fundum. Næstu skrefin í ferlinu fólust í því að kenna börnunum að komast í snertingu við líkamsskynjun sína en það er gert með leikjum og samskiptum. Markmiðið hér er að börnin komist smám saman að því að líkamsvitund þeirra sé þeirra eign, þeirra sannleikur sem leiði þau áfram til betri vitundar um rétt sinn.

Tilgáta okkar er sú að með því að kenna börnum að vera reglulega í tengslum við þennan sannleika séum við að stuðla að því að þau séu betur í stakk búin til að treysta sínum “innri stað sem veit hvað er rétt fyrir þau”. Um leið og þau vita hvað er rétt fyrir þau sjálf verða þau meira meðvituð um hvað sé rétt fyrir aðra. Í þessu umhverfi er það trú okkar að börnin læri smám saman að það sé í lagi að finna fyrir öllum tilfinningum sínum og að það að vera sorgmæddur, reiður eða hræddur sé jafnmikilvægur þáttur og eigi jafn mikinn rétt á sér og að vera glaður og reifur.

Stærstur þáttur fókusingstarfs með börnum felst í því að vera með barninu þar sem það er, taka tíma til að hlusta á það og bera virðingu fyrir því sem barnið er að upplifa, spegla upplifanir þess á fókusinghátt. Skipulagt starf beinst að því að teikna og mála líðan og tilfinningar, nota leir, hreyfingu og hlutverkaleiki með opinni tjáningu.

Strax fyrsta árið (2000) var farið að bera á árangri sem kom fram bæði í sögum foreldra af börnum sínum og einnig á leikskólanum sjálfum. Börnin eru farin að biðja um að fá að teikna hvernig þeim líður ef þannig stendur á og oft kemur upp sú staða að jafna þarf leiki á grundveilli “staðarins sem veit hvað er best fyrir okkur”, sem nú þegar hefur komið nokkrum einstaklingum á sporið með að láta ekki vaða yfir sig og að þora að viðra sjálfstæðar skoðanir sínar. Mörg dæmi eru um að úr hafi orðið góðar lausnir á vandamálum þegar leikskólakennara hefur tekist að vinna innan ramma fókusing-kerfisins í samskiptum við barn. Fullt samþykki og áhugi leikskólastjóra er fyrir hendi auk mikils áhuga meðal starfsfólks um að halda vinnu þessari áfram.

Unnið er með fókusingaðferðina á þrennskonar hátt í leikskólanum í dag

  • Aðferðin er notuð í daglegum samskiptum við börnin, þar sem ríkjandi eru þau viðhorf sem áður eru nefnd fókusingviðhorf. Leikskólakennarinn leggur áherslu á að vera með barninu frekar en hjá því.
  • Unnið er með einstaklinga, einn í einu í skipulögðum valstundum innan leiktímans. Samvera leikskólakennara og barns eru á forsendum barnsins, þar sem tekið er undir þær tilfinningar sem barnið upplifir. Leikskólakennarinn speglar orð og athafnir barnsins.
  • Unnið er með elstu börnin í hóp. Athyglinni er þá beint að þeim tilfinningum sem börnin upplifa og þeim gert kleyft að ræða þær á sínum forsendum og þeim veitt nærvera “þar sem þau eru”.

Upplýsingar um námskeið og einkatíma í síma 891-9873,
valao@itn.is

Valgerður Ólafsdóttir MA
Fókusing kennari/þjálfari