Fokusing - Valgerdur Olafsdottir

Main menu:

Meðvitað uppeldi

Saga um tilfinningar - höfundur Valgerður Ólafsdóttir

Saga um tilfinningar er samin með það að markmiði að tala um tilfinningar við börn. Tilfinningar eru eðlilegur og sjálfsagður hluti af okkur. Við finnum fyrir lífinu og tökum þátt í því með tilfinningum okkar. Þær gera okkur að sérstæðum einstaklingum því við finnum öll til en ekki á sama hátt. Tilfinningar okkar eru sérstakar fyrir okkur og við ein eigum aðgang að þeim.
En einhverra hluta vegna eru tilfinningar feimnismál. Fæst okkar kunnum að fara að tilfinningum okkar, eigin eða annara, á þann hátt að öllum líði vel. Margir eru lokaðir fyrir því sem er að gerast innra með þeim og það sem meira er, þeir hafa ekki hugmynd um að þeir séu lokaðir. Margir eru í svo mikilli afneitun að þeir vita hvorki hverjar tilfinningar þeirra eru né að þeir séu í afneitun. Og svo flýjum við í eitthvað sem tekur okkur út úr tilfinningunum og erum í eltingaleik við okkur sjálf daginn út og daginn inn.
Er ekki kominn tími til að ala börn upp á þann hátt að þau geti verið opin fyrir sjálfum sér? Opin fyrir því að það sé allt í lagi að vera ég og þú með öllum okkar tilfinningum? Að það sé allt í lagi að vera reiður og hræddur og dapur líka – þetta eru allt mannlegar tilfinningar. Stundum er maður glaður og stundum er maður sorgmæddur, svona er bara lífið og okkar hlutverk sem uppalendur er að vera til staðar fyrir þessar tilfinningar hjá börnum. En til þess að geta verið raunverulega til staðar fyrir börn þurfum við að byrja á að sýna sjálfum okkur þá virðingu sem við eigum öll skilið. Þetta byrjar allt á okkur sjálfum.
Þegar þú lest þessa bók fyrir barn eða börn er líklegt að það komi upp tilfinningar hjá þér. Reyndu að viðurkenna þær og vera með þeim. Þær eiga fullkomlega rétt á sér. Þær bara eru þarna.
Við fullorðið fólk eigum það til að vera tillitslaus við börn, svara þeim ekki og virða þau ekki sem þá fullgildu einstaklinga sem þau eru. Börn eiga – eins og við sjálf – fullan rétt á öllum sínum tilfinningum og það er eitt af okkar hlutverkum að ræða þann hluta lífsins við þau. Því sannfærðari sem börn eru um sig sjálf, sínar tilfinningar og rétt sinn yfir þeim – því hæfari  einstaklingar verða þau.
Það eru spurningar með hverri blaðsíðu sem eru settar fram í þeim tilgangi að fá barn til að ræða tilfinningar sínar sem það eðliega fyrirbrigði sem þær eru. Okkur sárnar stundum og það þarf að ræða það. Stundum verður okkur á í umgengni og einhverjum sárnar og þá er afar mikilvægt að geta rætt það sem gerðist og hvernig okkur líður með það. Því tilfinningar eru jú bara tilfinningar – en þær eru líka eitt það merkilegasta sem við eigum sem hluti af okkur sjálfum.
Okkar besta gjöf til barna er að kenna þeim að standa með sér og sínum tilfinningum!

Námskeið að byrja. Smellið á NÁMSKEIÐ til að sjá meira.

www.medvitaduppeldi.is