Fokusing - Valgerdur Olafsdottir

Main menu:

Fókusing og tilfinningaþroski

Nýlega kom orðið “tilfinningagreind” inn í tungumál okkar. Komið hefur í ljós að greind eða gáfur koma aðeins að takmörkuðum notum nema fólk búi yfir því sem kallast tilfinningagreind; það að kunna að nota tilfinningarnar þannig að þær leiðbeini hugsun okkar. En samkvæmt rannsóknum eykst hæfni einstaklings svo um munar við það að bæta tilfinningum við greind. M.ö.o. tilfinningagreindur einstaklingur er mun hæfari og farnast betur en sá sem ekki kann á tilfinningar sínar.

Til þess að geta notað tilfinningarnar til að leiðbeina okkur þurfum við að hafa nokkra stjórn á þeim og til þess að hafa stjórn á tilfinningunum þurfum við að þekkja á þær, að minnsta kosti að einhverju leyti. Þar sem tilfinningaleikni er aðferð til að verða meðvitaður um tilfinningar sínar má gera ráð fyrir að hún auki tilfinningagreind viðkomandi. Ef börnum á unga aldri er kennd þessi aðferð er það trú okkar að það muni auka líkur á að þau verði opin fyrir sínum eigin tilfinningum og beri jafnframt virðingu fyrir tilfinningum annarra. Á þann hátt verði þau meðvituð um sig sjálf og aðra og læri þannig betur á lífið og tilveruna, öðlist meiri tilfinningagreind.

Og hvernig kennum við börnum að þekkja tilfinningar sínar?
Einfaldasta og besta leiðin til þess að kenna börnum á tilfinningar sínar er að virða og viðurkenna þau og hlusta á þau, vera með þeim í upplifunum þeirra. Þegar við tökum undir tilfinningar barna og hlustum á þau og sýnum þeim virðingu þá kennum við þeim að þekkja sínar tilfinningar og sín mörk.