Fokusing - Valgerdur Olafsdottir

Main menu:

Börn

Fókusing með börnum, tilfinningaleikni

Tilfinningaleikni aðferðin með börnum byggir fyrst og fremst á því að skapa umhverfi sem einkennist af öryggi, opnum huga, samhyggð, nærgætni og gagnkvæmri virðingu. Innan þessa ramma er hlustað á börnin og verið með þeim “þar sem þau eru” en ekki reynt að breyta þeim eða því sem þau eru að ganga í gegnum. Þeim er “veitt nærvera”, það er tekið undir þær tilfinningar sem þau upplifa með því að skapa aðstæður þar sem slíkt er eðlilegt og sjálfsagt. Börnunum er veitt tækifæri og þau hvött til að ræða um tilfinningar, bæði eigin og annarra, jafnt góðar sem slæmar. Markmiðið hér er að börnin komist smám saman að því að tilfinningar þeirra séu þeirra eign, þeirra sannleikur sem leiði þau áfram til betri vitundar um rétt sinn.

Tilgáta okkar er sú að með því að kenna börnum að vera reglulega í tengslum við innri sannleika séum við að stuðla að því að þau læri að treysta sínum “innri stað sem veit hvað er rétt fyrir þau”. Um leið og þau vita hvað er rétt fyrir þau sjálf verða þau meira meðvituð um hvað sé rétt fyrir aðra. Í þessu umhverfi er það trú okkar að börnin læri smám saman að það sé í lagi að finna fyrir öllum tilfinningum sínum og að það að vera sorgmæddur, reiður eða hræddur sé jafnmikilvægur þáttur og eigi jafn mikinn rétt á sér og að vera glaður og reifur.

Starfið með börnum felst í því að vera með barninu þar sem það er, taka tíma til að hlusta á það, bera virðingu fyrir því sem barnið er að upplifa og spegla upplifanir þess samkvæmt aðferðinni. Skipulagt starf með börnum beinst að því að teikna og mála líðan og tilfinningar, nota leir, hreyfingu og hlutverkaleiki með opinni tjáningu.

Tilfinningaleikni hjálpar barni:

  • að vera í sambandi við innri líkamsvitund
  • að geta notað líkamsvitundina til þess að fást við lífsins vandamál og uppákomur
  • að þurfa ekki að afneita vandamálum eða láta eins og þau séu ekki til heldur geta unnið úr þeim
  • að hafa leyfi til að vera sorgmædd (ur), reið(ur) eða hrædd(ur) og að það er eðlilegt að upplifa þessar tilfinningar
  • að fá samkennd með öðrum sem upplifa sams konar tilfinningar
  • að treysta okkar innri stað sem veit hvað er rétt fyrir okkur
  • að hafa stjórn á tilfinningunum
  • að einbeita sér að verkefnum
  • að geta leitað aðstoðar

Fókusing: aðferð til að þroska tilfinningagreind

Nýlega kom orðið “tilfinningagreind” inn í tungumál okkar. Komið hefur í ljós að greind eða gáfur koma aðeins að takmörkuðum notum nema fólk búi yfir því sem nú kallast tilfinningagreind; það að kunna að nota tilfinningarnar þannig að þær leiðbeini hugsun okkar. Til þess að geta notað tilfinningarnar til að leiðbeina okkur þurfum við að hafa nokkra stjórn á þeim og til þess að hafa stjórn á tilfinningunum þurfum við að þekkja á þær, að minnsta kosti að einhverju leyti. Þar sem tilfinningaleikni er aðferð til að verða meðvitaður um tilfinningar sínar má gera ráð fyrir að það að hafa þessa aðferð á takteinum auki tilfinningagreind viðkomandi. Með því að kenna börnum á unga aldri þessa aðferð er það trú okkar að það muni auka líkur á að þau verði smám saman opin fyrir sínum eigin tilfinningum og beri jafnframt virðingu fyrir tilfinningum annarra. Á þann hátt verði þau meðvituð um sig sjálf og aðra og læri þannig betur á lífið og tilveruna, öðlist meiri tilfinningagreind.


Upplýsingar um námskeið og einkatíma í síma 891-9873,

Valgerður Ólafsdóttir MA